Sunday, February 27, 2005

Ferskeytlan er frónbúans fyrsta barnaglingur

Heimsborgararnir Agnan og Grettir héldu tregafullir út fyrir mörk höfuðborgarinnar á laugardaginn var.
Tilgangurinn var að sjálfsögðu sá eini sem fær mann til að stíga fæti út fyrir borgina - Rendezvous á Bakkus (Stefnumót við Bakkus, fyrir leikmenn (Áfengisdrykkja, fyrir virkilega trega)).
Yfirskrift ferðarinnar var Ferð nefndar skreytinga árshátíðar, auk nefndar árshátíðar.
Mikið var sprellað, og teflt var við allar stéttir samfélagsins, allt frá litlum busum upp til páfans.



Margt var um kvenmanninn.
Samt sem áður var mesta ,,kynlíf" sem Heimsborgari Agnan komst í tæri við þetta kvöld, þegar Elzbieta Baranowska missteig sig og féll á Heimsborgarann.
Hún reis þó fljótt upp aftur en Agnan horfði með eftirsjá á ginið sem draup af borðinu niður á gólf, í stórum sorgmæddum dropum...


Heimsborgarinn fer þó að íhuga sökum helberrar gúrkutíðar í kvennamálum, að leggja inn auglýsingu í DV, hvernig líst ykkur á?:

Hæ, ég er 19 ára menntaskólanemi sem hefur áhuga á:
- Víndrykkju
- Tónlist
-Hljóðfæraleik
-Kyrjun
-Breimun stelpna
o.fl.

Ef þú, kæri lesandi (kvk.) , samsvarar þér með mér og telur þig vera heimsborgaralega sinnaðan kvenmann með meiru, endilega þá, hafðu samband sem fyrst.


Nú fer þó Heimsborgarinn að enda þetta tilfinningaflæði, og það skal hann gera með litlu miðdegisljóði eftir sjálfan sig, Agnan Delacroix Louvré.


Draumur Hamlets og Júlíu um Jónsmessunótt.

Ó, Rómeó! Ó, Rómeó!
Láttu mig vita er þú færð nóg.
Finndu svo það sem hún úr þér dróg,
drekkti í tjörninni og fleygði út í skóg.

Ó, Rómeó! Ó, Rómeó!
Föl er þín hlykkjótta slóð,
þótt kinn þín sé ætíð jafn rjóð.
Segðu við hana! Segðu við hana!:
,,Hví ertu með þessum viðbjóð?"



...og mávarnir grétu.


Þessi ljóð tvö, voru tileinkuð Hr.Ásgeiri Birkissyni, f. 13.11.1985, d. Ekki enn (þrátt fyrir að félagsdauði hafi hlotist með ofangreindu kommenti sínu hér að ofan, um máva)

I Must Break You...

Saturday, February 26, 2005

Ný uppgötvun

Sem ég og meðheimsborgari minn Grettir sitjum að nóttu til og skrifum niður stjörnufræðifyrirlestur til flutnings í fyrramálið teljum við okkur hafa komist að merkilegri niðurstöðu. Nú tel ég víst að margir lesendur þessa bloggs, þá sérstaklega hinir víðlesnu (en það að vera víðlesinn er eitt af frumskilyrðum þess að vera heimsborgari að sjálfsögðu) hafa heyrt um Hawking geislun. Ég og Grettir teljum okkar hins vegar hafa fengið vísindalega sönnun á tilveru svokallaðrar Buckteeth-geislunar, en hún stafar einkum af rauðum dvergum. Súr færsla? Jebb, en hún vakti mikla kátínu á meðal vorra heimsborgara þegar hún var rituð.

Vínsmökkun

Í gær fór heimsborgari undirritaður í vínsmökkunarboð. Boðið var haldið á Seltjarnarnesi hjá séntilmanninum Brynjari. Byrjað var á ýmsum bjórum, Lager bjór og Tuborg og þeir drukknir af miklu kappi eins og heimsborgurum er einum lagið því eins og heimsborgarinn Agnan benti hér á í fyrri færslu þá getur Heimsborgarinn ómögulega tekist á við raunveruleikann án þess að vera við skál. Síðan var fært sig yfir í sterkt áfengi og var Vodki í Sprite smakkaður. Að lokum var farið í hvítvínið og þá sáu heimsborgararnir ástæðu til að skála. Eftir það fórum við í hið saurslega ómenningarbæli sem miðbær Reykjavíkur er til að halda baráttu okkar gegn plebbismanum áfram.

Meðheimsborgarinn Ásgeir benti mér á nýja og fágaða aðferð við að dæma um gæði rauðvíns án þess að smakka það eða þefa af því. Svo virðist sem heimsborgarinn Agnan hafi beitt þessari aðferð í þónokkurn tíma með góðum árangri. Þegar hann velur rauðvín þá leitar hann eftir tvennu: í fyrsta lagi verði og í annan stað alkahólmagni. En þessari aðferð til gæðamats má slá upp í eftirfarandi jöfnu:

γ = β/ή
Þar sem γ[kr^(-1)] táknar gæði, β táknar áfengismagn í ppm og ή er verð í íslenskum krónum.
Dæmi:
Darri fer í ríkið og sér flösku sem kostar 890 kr og er 14% áfengismagn!
Hann, himinlifandi, kaupir flöskuna og fer á föller.
Stöldrum aðeins við og sjáum hvað þessi flaska fær mörg stig
í gæðamatsjöfnunni.
Höfum: γ = β/ή. Setjum í jöfnuna og fáum:
γ = 140.000/890kr = 157.3(1/kr). Ljóst er að hún fær hágæðaeinkun.
Fram, fram og aldrei að víkja,
niður með plebbana.

Sunday, February 20, 2005

Góður heimsborgaraskapur

Pavarotti að næturþeli svíkur engan!

Friday, February 18, 2005

Gott að hafa í huga

Heimsborgarar sofa ekki. Darri var ennþá vakandi fyrir skömmu, hins vegar legg ég það ekki á Gretti að hringja í hann. Gaman að þessu...

Thursday, February 10, 2005

Viðurkenning Heimsborgarans

Í kvöld munu meyjar og sveinar spyrna fótum við taktfasta hrynjandi angurværrar tónlistar.

Já, árshátíð í kvöld!

Ekki er laust við að Heimsborgari Agnan sé spenntur fyrir herlegheitunum.
Vopnaður gerjuðu brauði og þjóðardrykk Mexíkana heldur hann ótrauður á vit ævintýranna.
Spenningur Agnans stafar þó af öðru en fyrirtíðafiðring Bakkusar!

Nú þannig er nefnilega mál með vexti að fyrr í dag var haldin árshátíðardagskrá Framtíðarinnar. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að hátíðarræðumaður var enginn annar en forseti vor, herra Ólafur Ragnar Grímsson.
Eins og hátíðarræðumanni sæmir flutti hann skemmtilegar og þroskandi sögur, en athyglisverðust þóttu mér ummæli hans í lok ræðunnar:

,,Ég hvet alla MR-inga til að halda í ræturnar, vera sannir Íslendingar, en einnig gera heiminn að vettvangi ykkar, og vera sannir Heimsborgarar!".

Heimsborgari Agnan missti andlitið! Nú hefur sjálfur forseti Íslands lagt blessun sína yfir Heimsborgarann, og bíð ég spenntur eftir að sjá hvaða fleiri valdamenn sjái ljósið.
Ég tel ekki vera langt í ríkisstjórnina, og varla er langur tími í að ítök Heimsborgaranna nái út fyrir landsteinana.

Verið því spenntir, eins og ég, kæru Heimsborgarar, því stórkostleg umbrot eru í áhrifamætti okkar þessa stundina. Brátt mun allur plebbaskapur leggjast af; hnakkar munu gufa upp; poppmenningin mun hverfa og já, við fáum uppreisn æru!
Skálum því í dýrindis Cognac fyrir kvöldið, með þreföldu húrra:

Húrra! húrra! húrra!


E.S. Tókuð þið eftir semi-kommunum?

Sunday, February 06, 2005

Regnhlífar

Plebbismi Reykvíkinga hefur skaddað heimsborgarann svo að hann á það til að gleyma hvernig á að bera sig í samfélagi séntilmanna. Undirritaður heimsborgari brá undir sig betri fætinum og fór til menningarborgarinnar Lundúna. Hann hafði að sjálfsögðu með sér Traversi skóna úr krókódílaskinni, Armani fötin, Burberry trefilinn og pípuhattinn. En er hann steig úr einkaþotunni sem hann hafði leigt gegn veði í húsinu var hlegið að honum! Ástæða: Hann var ekki með regnhlíf.

Ó skömmin, niðurlægingin og örvæntingin! Hann hugsaði með hryllingi til Reykjavíkur; allir plebbarnir hlaupandi um í krumpugöllum sama hvernig viðraði. Heimsborgarinn hafði látið þá menga huga sinn svo að hann hafði ómeðvitað hætt að ganga með regnhlífina sína. Hann tók sig þó saman í andlitinu, fór huldu höfði í Swaine Adeney Brigg og keypti sér regnhlíf. Nú var hann heimsmaður með mönnum; hann gekk hnarreistur um götur Lúndúnaborgar með regnhlífina spennta hátt á lofti; hann fór í Fortnum og Mason, Royal Shakespeare theater og Tate modern.

Nú situr hann á veitingahúsi og skálar í Cognac ásamt meðheimsborgurum, Agnan og Ásgeiri. Hann þarf að sofa á farfuglaheimili í nótt því húsið var tekið af honum. En það skiptir ekki máli. Í kvöld munu Heimsborgararnir ganga um miðbæ Reykjavíkur með Brigg regnhlífarnar spenntar og plebbarnir munu sjá og hugsa með sér: "Hverjir skyldu vera gestir í JingJang í kvöld?".

Tuesday, February 01, 2005

Heimsborgarinn Grettir

Undur og stórmerki! Hin heilaga Heimsborgaraþrenning er loks fullkomnuð. Heimsborgari Grettir kveður sér hljóðs. Nú er leiðin til algers heimsborgaralífernis greiðfær. Kæri lesandi, Grettir mun berjast gegn meðalmennskunni með hárbeittum og hámenningarlegum skrifum. Skrúfblýantar skulu víkja fyrir fjaðurpenna, orðskrípi fyrir orðskrúða, dægurflugur fyrir heimsmálefnum og skáldaleyfið skal með öllu bannfært. Grettir mun svíða meðaljónin með logandi sverði.

Kæru lesendur.
Hin myrka öld ómenningar hefur runnið sitt skeið.
Öld heimsborgarans er gengin í garð.