Saturday, January 22, 2005

Heimsborgarapósan

Já, það má með sanni segja að heimsborgararnir hafi komist í hann feitan í gær þegar að þeim var boðið í veizlu. Vakti mikla lukku vora að boðið var upp á léttvín og snittur (ásamt öðru) og runnu hinar gerjuðu þrúgur ljúflega niður háls heimsborgaranna. Af því tilefni var eftirfarandi mynd tekin, en hún sýnir vel hina heimsborgarísku stemmningu sem við lýði var í veizlunni.

Friday, January 14, 2005

Heimsborgarakvöld vel heppnað

Nú er þetta er ritað, situr Heimsborgari Agnan í skrifstofustól á Kapalskjólsvegi 85, vafinn fjöðrum óminnishegrans. Minningar kvöldsins rétt innan seilingar, en einungis einum bjór frá því að hverfa.
Drukkið í kvöld var Lehmann rauðvín á kr.1440 í Ríkinu (!). Megi kaupmenn Íslands rísa upp og mótmæla þessari kúgun áfengisnautnamanna sem helst bitnar á Heimsborgurunum, mér og Ásgeiri og öðrum hvar sem þeir mega vera.

Nokkrir bjórar niður
Í sálinni er friður.
Margt er undan fram,
en ekki snerta, skamm, skamm, skamm.

Fjaðrirnar mig svo sannarlega sveipa. Óminnishegrinn svífur í austri og horfir á mig hlæjandi: ,,Oh-ho-ho. Teigaðu þennan sopa vel kæri vinur, því hann þinn sá síðasti mun verða í kvöld. Fyrr muntu rísa upp og fljúga yfir heimsins höf en stíga úr kistu þinni frjáls og óbeislaður."

BUCK!

Thursday, January 13, 2005

Toppeintak!

Eftir að hafa varið mörgum stundum með Súkkulaðinu (a.k.a. Guillaume, Skúnkurinn, Collegían eða bara Villi) hef ég ekki komist hjá því að læra ýmis slanguryrði sem er áberandi fylgifiskur tiltölulega nýrrar gerðar
af -isma sem kallast hnakkismi.

Hér eru sýnidæmi:

Þetta er toppeintak!
Notast til lýsingar á manneskju eða hlut sem hnakkinn hefur sérstakt dálæti á.

Sælir!
Þeim tókst það! Hnökkunum hefur tekist að gera þérun að tískufyrirbrigði.

Ekki veit ég hvað tíminn mun bera í skaut, en þó veit ég að með því mun meiri tíma sem ég eyði með Súkkulaðinu/Skúnkinum/Guillaume/Collegíunni/Villa, því meir fjarlægist ég Heimsborgarann.
Ójá! Rauðvín mun víkja fyrir Breezer; dýrindis Camembert-ostar munu víkja fyrir Boozti á Booztbarnum; helgi í París mun víkja fyrir 20 mínútum í ljósabekk og svo munu myndarlegar og vel þenkjandi kvenmenn víkja fyrir tannstönglum dýfðum í málningadollu (sem er mín skilgreining á stelpum hneigðar til hnakkisma).

Að lokum smá upplýsingar fyrir upprennandi Heimsborgara:
Þegar ritaður er texti, reynir Heimsborgari alltaf að nota semikommur, því semikommur eru það eina sem hnakkarnir geta ekki tekið frá okkur (hnakkar vita ekki hvað semikommur eru).




Thursday, January 06, 2005

Heimsborgarar á fimmtudagsmorgni

Í eilífri baráttu okkar höfunda þessa vefrits til að geta lifað lífi heimsborgarans til fullnustu í hinni annars menningarsnauðu borg Reykjavík, sem halda mætti að reist hafi verið af Plebeium til forna, gripum við höfundarnir til nýrra baráttuaðferða í dag. Í hinu hefðbundna morgunspjalli okkar heimsborgaranna sem fer fram stundvíslega klukkan 7:15 á hverjum morgni í gegnum síma kom meðheimsborgari minn með djarfa uppástungu. Rétt eins og meðheimsborgara okkar úti í París greip okkur sár löngun í ilmandi nýtt og volgt bakkelsi og brugðum við því á það ráð að halda út í brauðgerðarmusteri Bernhöfts. Er skemmst frá því að segja að þessi för var frægðarför og ljóst að andi hins sanna heimsborgara lék í brjósti okkar það sem eftir lifði dags og ljóst að baráttuþrek okkar í þessari orustu gegn plebbaskap sem við teljum siðferðislega skyldu okkar til að heyja hefur verið eflt til muna. Vefritið Heimsborgarinn hvetur því alla þá sem standa í þessari baráttu með okkur að fjölmenna út í bakaríin á morgnana og efla kjark, dáð, þrek og þor.

Heimsborgari Agnan (borið fram Anjan)

R&C
Reykjavík Classic, eða ´rauðvín og Camembert´ (fyrir leikmenn) hefur löngum verið talin góð blanda, sérstaklega ef út í er bætt rómantískri tónlist og funheitum elskhuga.
Alls ekki fyrir löngu uppgötvaði ég þó að þessa unaðslegu blöndu má nota til að rífa sig upp úr rúminu á morgnana.
Margar flugur eru slegnar í einu höggi með þessu móti:
Losað er um vonda morgunskapið ásamt morgunandfýlu, mætt er almúganum hress og léttur, morgunmatur verður óþarfur og síðast en ekki síst, önnur afsökunin fyrir að teiga skáldamjöðurinn góða er að baki.
(Hver lærlingur skal nema það að fullgildur Heimsborgari leitar að afsökun í hverju horni fyrir að skella í sér einum drykk; hvernig á hann annars að geta mætt almúganum af fullri alvöru?)

En nú horfir Heimsborgari Agnan fram á teigamikla helgi, fulla af ástkonum Díonýsosar dansandi við taktfast hjarta yfirþyrmandi ölvunar.
Heimsborgari Agnan muna skála í dýrindis Cognac á la Heimsborgari Ásgeir og eflaust munum við klingja saman kristalsglösum okkar um næstu nótt, veikburða af lotningu yfir yfirburðum okkar gagnvart mannkyninu, fullir af tilhlökkun, fullir af spennu, fullir af gleði, fullir....

Monday, January 03, 2005

Skálað í fínt!

Hver hefur ekki lent í þeirri annarlegu aðstöðu að gullkreditkortið bregst manni við kassann í ríkinu, af því að pabbi gleymdi að leggja inn á?
Maður er kominn með cognac (koníak, fyrir leikmenn) og afburðagott, ástralskt rauðvín í körfuna, en allt kemur fyrir ekki, maður labbar tómhentur út og ríkið lokar eftir kortér, ekki sjéns að detta fínt í það í kvöld!
Örvæntið eigi lengur kæru heimsborgarar, því lausnin er einföld, ódýr og sérlega bragðgóð:

Alls ekki fyrir svo löngu vorum téðir Heimsborgarar og annar einstaklingur (kenndur við rós og maura) vafrandi um götur Keflavíkur. Vatt þá upp að okkur maður að nafni Sebastían, en hann hélt á einkennilegri flösku, svolítið verkamannalegri en innihaldið var dásamlegt, fullyrti hann. Við, æstir í nýjungar, létum ekki slag á standa og stukkum á tilboðið, 1500 kr. líterinn, og sáum ekki eftir því.
Ónei! Kvöldið var í hillingum. Dansandi Leprekónar, Súkkulaði og Skúnkar komu við sögu í einu æsilegasta fylleríi síðan Heimsborgararnir byrjuðu að skála!
Og hver er galdurinn?

Keflavíkurlandinn!