Saturday, September 04, 2004

Opnunarávarp Heimsborgarans

Ég býð ykkur velkomin hér á Heimsborgarann. Hér munið þið finna skjól frá hinum ýmsasta plebbisma sem tröllríður þjóðfélaginu um þessar mundir. Eruð þið orðin þreytt á að fara með fólki á veitingastað sem fær sér bjór með dýrindis nautasteik? Þekkið þið einhverja sem biðja um steikina well done en ekki medium-rare? Fólk sem drekkur Egils Pilsner og finnst það vera góður bjór? Fólk sem fær mynd af risastórum hundi upp í heilann þegar það heyrir minnst á Beethoven, og heldur að Mozart sé súkkulaðiframleiðandi. Fólk sem hlær að Simma og Jóa en kann ekki að meta Frasier?

Ef þið eruð orðin dauðþreytt á þessum plebbisma, rétt eins og ég er orðinn, þá veit ég að við munum eiga samleið á þessari síðu. Við munum standa saman, við munum rísa upp gegn plebbunum, við munum neita að láta bjóða okkur það lengur að Jói Fel sé í guðatölu og sameinuð munu plebbarnir lúta í lægra haldi.

Og á meðan þessu stendur munum við dreypa á dýrindis koníaki, reynslusögur úr heimsreisum okkar, hvað Ngidu var nú skemmtilegur þegar við heimsóttum Tútúmennina og rifjum upp hvað frumbyggjarnir í Papúa, Nýju-Gíneu voru nú hýrir á brá þegar þeir dönsuðu fyrir okkur.

Lifi byltingin
Deyðist plebbar
Upp upp, við hörfum aldrei
Alheimsborgararáð!