Ónýtur
Það er deginum ljósara að undirritaður Heimsborgari þolir ekki lengur menningarskort og almennan plebbaskap í Reykjavík. Liðin er sú tíð að undirritaður gat drukkið tunnur af rauðvíni undir styttum Parísar og kúta af Böðvari á bökkum Vltava. Í gær héldu Heimsborgararnir þrír ásamt skjaldsveini sínum, Guillaume de la Skúnk, á hið svonefnda "djamm" sem er víst aðalskemmtun óupplýsts almúga íslensku þjóðarinnar.
Vægast sagt hafði þessi reynsla djúpstæðari áhrif á mig en ég gat gert mér í hugarlund. Morguninn eftir er ég ætlaði mér að rísa úr rekkju undir ljúfum tónum hins 250 ára afmælisbarns leið mér eins og líkami minn hefði lent í sömu hakkavél og gæsalifrin sem ég gæddi mér á í París í formi patês. Gjörónýtur lá ég í móki undir dúnsæng minni og reyndi að hreinsa huga minn af minningum næturinnar. Er ég nú allur að koma til eftir því sem ég skrifa þetta, enda fátt meira gefandi en að vara viðkvæmar sálir við því að lenda í sömu hremmingum og ég.
Nú hljómar franski þjóðsöngurinn úr næsta herbergi, berst til eyrna minna og veitir mér kraft. Þökk sé honum hefur mér takist að endurreisa stolt mitt og hugi minn reikar nú til Notre Dame og Louvre. Ég er frjáls á nýjan leik.